Leggðu eins og meistari


E


Ósk um endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðvunarbrotagjalds

Endurupptaka (andmæli)

Ákvörðun um álagningu

Endurupptaka

(andmæli)

Reglur


 Eyðublað fyrir samþykki íbúðareiganda

 Form for apartment owner's approval


REGLUR

um bílastæðakort íbúa í Reykjavík

Borgarráð samþykkti eftirfarandi nýjar reglur um bílastæðakort íbúa með tilheyrandi yfirlitskorti yfir bílastæðasvæði á fundi sínum þann 21. maí 2015 með tilvísun til 2. mgr. 83. gr. umferðarlaga nr. 50/1987:

  1. Íbúar með lögheimili á ákveðnum svæðum í Reykjavík, sbr. 2. lið, þar sem ekki er bílastæði á lóð, geta sótt um að fá keypt bílastæðakort íbúa (hér eftir nefnt íbúakort) hjá Bílastæðasjóði Reykjavíkur. Umsækjandi þarf að vera eigandi fasteignarinnar, maki skv. þjóðskrá, ættingi eða leigjandi með þinglýstan húsaleigusamning. Ættingi telst vera barn, foreldri, systkini eða barnabarn. Ef umsækjandi er leigjandi íbúðar skal framvísa þinglýstum húsaleigusamningi með umsókn en ávallt skal skila inn samþykki eiganda íbúðar ef umsækjandi er ekki þinglýstur eigandi.
  2. Íbúakort veitir heimild til að leggja bifreið án endurgjalds í gjaldskyld bílastæði innan þess svæðis, sem íbúakortið tekur til. Íbúakortið gildir á svæðinu þar sem umsækjandi býr, en þó ekki á gjaldsvæði 4 og á tilgreindum götum og svæðum á gjaldsvæði 1 (sjá nánar um gjaldsvæði á heimasíðu Bílastæðasjóðs). Íbúar á gjaldsvæðum geta fengið íbúakort sem gildir á því svæði sem liggur næst þeirra lögheimili. Gildissvæði íbúakorta eru nánar tilgreind á sérstöku yfirlitskorti sem fylgir þessum reglum.
  3. Fjöldi bílastæða á lóð skal ákvarðaður í deiliskipulagi, sé tilskildum fjölda bílastæða ekki komið fyrir á lóð er Reykjavíkurborg heimilt að innheimta bílastæðagjald fyrir þann fjölda sem á vantar. Óheimilt er að gefa út fleiri íbúakort til íbúa viðkomandi lóða en vegna þeirra stæða sem greitt hefur verið fyrir. Sé ekki gerð krafa um bílastæði á lóð nýbyggingar í deiliskipulagi er óheimilt að gefa út íbúakort til íbúa viðkomandi lóða. Þar sem stæði á lóð eru í sameign allra er óheimilt að gefa út íbúakort til íbúa viðkomandi lóðar nema fyrir liggi eignaskiptayfirlýsing eða afnotaskipting stæða undirrituð af öllum eigendum lóðarinnar.
  4. Umsækjandi þarf að vera skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðarinnar sem sótt er um kort fyrir samkvæmt ökutækjaskrá. Skal bifreiðin vera á íslenskum skráningarnúmerum. Sé umsækjandi meðeigandi eða umráðamaður bifreiðar sem sótt er um íbúakort fyrir þurfa aðrir meðeigendur og umráðamenn að eiga sama lögheimili og umsækjandinn, að undanskildum bifreiðum sem fjármagnaðar eru af fjármögnunarfyrirtækjum eða eru í langtímaleigu. Íbúakort eru ekki ætluð bifreiðum sem eru, hvort heldur sem er, lengri en 5,3 metrar eða breiðari en 2,0 metrar.
  5. Heimilt er að gefa út eitt kort fyrir hverja íbúð. Umsækjandi skal vera skuldlaus við Bílastæðasjóð. Óheimilt er að gefa út fleiri en eitt íbúakort á hverja kennitölu. Það á jafnframt við þó umsækjandi sé skráður eigandi fleiri en einnar íbúðar eða fleiri en eins ökutækis. Upplýsingar um íbúð skulu vera samhljóða skráningu hjá Fasteignaskrá Íslands. Óheimilt er að framselja íbúakort eða nota fyrir aðra bifreið. Bílastæðasjóður hefur heimild til að afturkalla íbúakort.
  6. Bílnúmer, gildistími og raðtala korthafa er skráð á íbúakortið. Íbúakortinu skal komið fyrir á innanverðri framrúðu bifreiðar bílstjóramegin þannig að það sé læsilegt utanfrá.
  7. Sótt er um íbúakort á heimasíðu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur en þar er hægt að nálgast helstu upplýsingar um íbúakort.
  8. Íbúakort er gefið út í eitt ár í senn. Íbúakort gildir þó aldrei lengur en húsaleigusamningur sbr. 1. lið. Íbúakort skal greitt fyrifram. Sama gildir um endurnýjun korta. Til frádráttar getur komið ef um að ræða endurútgáfu vegna breytinga á bílnúmeri og skal þá árgjald kortsins lækka fyrir hvern heilan mánuð sem eftir er af gildistíma eldra korts, að hámarki 8 mánuði. Breytist aðstæður korthafa, svo sem vegna flutnings, sölu bifreiðar eða af öðrum ástæðum sem valda því að skilyrði til útgáfu íbúakorts eru ekki lengur uppfyllt ber að skila kortinu til Bílastæðasjóðs Reykjavíkur. Íbúakort eru ekki endurgreidd.
  9. Misnotkun kortsins varðar missi kortsins án endurgreiðslu eftirstandandi gildistíma. Handhafi kortsins hefur þá fyrirgert rétti sínum til að fá úthlutað íbúakorti í 2 ár.

Reglur þessar taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum og falla þá úr gildi eldri reglur, sbr. auglýsingu nr. 537/2010.

Borgarstjórinn í Reykjavík, 21. maí 2015.


Yfirlitskort - svæðaskipting íbúakorta

Íbúakort gilda ekki á Laugavegi, á Skólavörðustíg milli Laugavegs og Bergstaðastrætis, á Bergstaðastræti milli Laugavegs og Skólvörðustígs, á bílaplani Bergstaðstræti 6 og í Kvosinni (Lækjargötu, Kirkjutorgi, Pósthússtræti, Austurstræti, Hafnarstræti, Veltusund, Kirkjustræti, Aðalstræti, Tryggvagötu og Naustin)

Svæði A afmarkast af Túngötu, Holtsgötu, Ánanaustum, Rastargötu í loftlínu að Suðurbugt, Naustunum, Tryggvagötu, Grófinni, Mjóstræti og Aðalstræti.

Svæði B afmarkast af Lækjargötu, Fríkirkjuvegi, Skothúsvegi, Hellusundi, Bergstaðastræti, Bjargarstíg, Freyjugötu, Njarðargötu, Frakkastíg, Laugavegi og Bankastræti að Lækjargötu.

Svæði C afmarkast af Lækjargötu, Bankastræti, Laugavegi, Frakkastíg og Sæbraut.

Svæði D afmarkast af Sóleyjargötu, Skothúsvegi, Hellusundi, Bergstaðastræti, Bjargarstíg, Freyjugötu og Njarðargötu að Sóleyjargötu.

Svæði E afmarkast af Frakkastíg, Laugavegi, Snorrabraut og Sæbraut.

Svæði F afmarkast af Frakkastíg, Laugavegi, Snorrabraut, Egilsgötu og loftlínu milli Egilsgötu og Frakkastígs.

Svæði G afmarkast af Snorrabraut, Laugavegi, Kringlumýrarbraut og Sæbraut.

Svæði H afmarkast af Snorrabraut, Laugavegi, Nóatúni, Lönguhlíð og Miklubraut.

Svæði I afmarkast af Sóleyjargötu, Njarðargötu, loftlínu milli Njarðargötu og Egilsgötu, Egilsgötu, Þorfinnsgötu, Eggertsgötu og Barónsstíg að Sóleyjargötu.

Svæði J afmarkast af Suðurgötu, Þorragötu, Njarðargötu og Hringbraut.

Svæði K afmarkast af Túngötu, Holtsgötu, Ánanaustum, Hringbraut, Bjarkargötu, Tjarnargötu, Vonarstræti og Suðurgötu.

Reglur um bílastæðakort íbúa í Reykjavík